Sigmundur Davíð hjólar í samfélagsumræðuna

Framsóknarflokkurinn er greinilega klofinn og því varla stjórntækur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vekur athygli á grein sinni á Facebook en þessa grein, sem birt er 27.október, hugðist hann birta í erlendum fjölmiðlum þegar hann væri kominn aftur á fullt í stjórnmálabaráttunni og að óvissustigi Framsóknar væri lokið.

Má greina kunnuglegan tón í skrifum Sigmundar þar sem hann fer yfir þann mikla árangur sem ríkisstjórn hans og Sjálfstæðisflokks hefur náð á yfirstandandi kjörtímabili, slíkur er árangurinn að sérlegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar sagði það ekki eiga sér neina hliðstæðu í fjármálasögu heimsins.

Athygli vekur að Sigmundur talar um sjálfan sig sem formann Framsóknarflokksins þrátt fyrir að hann hafi hlotið í lægri hlut fyrir Sigurði Inga Jóhannessyni forsætisráðherra sem nú gegnir formennsku. Eftir að hafa talið upp það sem ríkisstjórnin hefur gert vel skiptir Sigmundur um gír og upplýsir lesendur um hvers vegna hann sé ekki lengur forsætisráðherra en það sé einfaldlega vegna ósanninda og árása frá fjölmiðlum sem nú sé búið að sýna fram á að eigi við engin rök að styðjast.

Greinina má finna á heimasíðu Sigmundar Davíðs en Fréttastofan tók saman lauslega þýðingu:

Nú má öllum þeim sem eitthvað hrærast í pólitík vera orðið það ljóst að við lifum á áhugaverðum tímum. Nú nánast áratug eftir hina miklu fjármálakreppu sem reið yfir hefur ekki tekist að ná þeim stöðugleika sem sóst var eftir. Það er vaxandi ólga innan rótgróinna stofnanna og allt sem á nokkurn hátt tengist fjármálum, hvort sem það eru stjórnmálaflokkar, fyrirtæki eða stjórnmálamenn, eru gerðir eins grunsamlegir og hægt er.

Það er mikilvægt að átta sig á því að slíkt er ekki að gerast að ástæðulausu. Stjórnmálamenn í vestrænum samfélögum hafa að undanförnu orðið varir um sig og farið að treysta um of á óskrifaðar pólitískt réttar viðmiðunarreglur um hvað stjórnmálamaður ætti og ætti ekki að segja. Ekki virðist lengur rými fyrir rétthugsun og stórar hugsjónir vegna vaxandi ótta við að verða umdeildir.

Vald fólksins hefur verið skert og þau vita það. Afleiðingarnar má nú sjá víðs vegar um Evrópu og í Bandaríkjunum þar sem vaxandi hreyfing virðist vera á and-pólitískum flokkum og stjórnmálamönnum.  Ég sjálfur get varla talist sem hefðbundinn stjórnmálamaður þó ég sé formaður elsta stjórnmálaflokks Íslands (100 ára gamall í ár).

Ég var kjörinn formaður flokksins árið 2009, aðeins tveimur vikum eftir að hafa gengið til liðs við flokkinn. Ég hafði sterka skoðun á hvað þyrfti að gera og hvað þyrfti að forðast. Ég barðist fyrir róttækum breytingum á fjármálakerfinu og viðraði þá hugmynd um hvernig hinir föllnu bankar gætu nýst til að afskrifa skuldir heimilanna og endurreisn efnahagskerfisins. Auk þess kom ég fram með ýmsar aðrar hugmyndir sem voru sérstaklega hannaðar fyrir þessar sér-íslensku aðstæður sem þá ríktu.

Á sama tíma lagði ég áherslu á lög og reglur í því sem má lýsa sem nánast byltingarkenndu andrúmslofti sem einkenndi íslensk stjórnmál eftir kreppuna. Þremur árum síðar fékk ég svo tækifæri til þess að koma hugmyndum mínum í verk sem forsætisráðherra Íslands. Þær hugmyndir reyndust verða jafnvel enn farsælli en mig hafði órað fyrir.

En fyrir aðeins fáeinum vikum þurfti ég að stíga til hliðar og biðja varaformann flokksins að taka við af mér sem forsætisráðherra. Það var ekki vegna skorts á árangri hjá mér. Í raun vil ég biðja hvern sem er að benda mér á vestræna ríkisstjórn sem að hefur staðið sig betur en sú íslenska í að ná fram jafn góðum árangri fyrir landið sitt á síðastliðnum þremur árum.

Íslenska efnahagskerfið hefur umbreyst vegna blöndu af hefðbundnum, skynsamlegum og efnahagslegum aðferðum, meðal annars að hafa komið í gegn loforði um að koma á stöðugleika í fjármálum og hafið framkvæmdir sem leiddu til mikils hagvaxtar með róttækum aðgerðum sem eiga sér engin fordæmi.

Þessum árangri var náð þrátt fyrir mikla mótstöðu frá stjórnarandstöðuflokkunum, stofnunum, svo ekki sé minnst á vogunarsjóðina sem það eitt vakti fyrir að græða sem mest á fjármálakreppu Íslands. Eins og flestir vita eru vogunarsjóðir Wall Street og London borgar ekki áhrifalausir, hvorki í pólitík né fjármálum. Á stuttum tíma eyddu þeir um 100 milljón pundum í að verja sína hagsmuni á Íslandi. Ég upplifði allt frá ítrekuðum hótunum upp í mútur um að kaupa „ásættanlega niðurstöðu“

Ég fékk oft að heyra að með því að láta vogunarsjóði borga fyrir endurreisn efnahagskerfisins myndi það hafa miklar afleiðingar. Slíkt yrði ekki látið líðast. Þar að auki voru margir sem einfaldlega gátu ekki fyrirgefið okkur fyrir að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þrátt fyrir allt þetta kláruðum við málið á slíkum skala að Lee Buchheit, sérlegur ráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, sagði árangurinn „eiga sér enga hliðstæðu í fjármálasögu heimsins“

Svo hvers vegna steig ég þá til hliðar sem forsætisráðherra? Að fletta í gegnum fjölmiðla ætti að gefa ykkur örlitla hugmynd um það. Sannleikurinn er sá að nafn mitt fannst í hinum svokölluðu Panamaskjölum í tengslum við fyrirtæki sem skráð var á bresku jómfrúareyjunum og var skráð á konuna mína. Þetta eitt var nóg til þess að koma af stað ótal kenningum og sögum um „hina földu sjóði“ forsætisráðherra.

Þessum sögum var gefið byr undir báða vængi með því að vísvitandi dreifa misskilningi og ósannindum, jafnvel fjölmiðlar bjuggu til heilu fréttirnar, allt til þess að sameinast um að telja fólki trú um að ég hefði eitthvað að fela. Ég skrifa þetta nú vegna þess að það hefur fengist staðfest að þetta var allt saman lygi. Einhverjum eru þessar sögur enn í fersku minni og því gæti það komið þeim á óvart að það voru engir faldir sjóðir, tilraunir til þess að komast hjá því að borga skatta né nein hagsmunatengsl.

Fyrirtækið í eigu konunnar minnar og allar þess eigur hafa ávalt komið fram á okkar skattaskýrslum og fullir skattar hafa verið greiddir af öllu saman á Íslandi. Engar tilraunir hafa nokkru sinni verið gerðar til þess að komast hjá því að borga skatta með einhverjum földum sjóðum. En ekkert af þessu virðist skipta máli þegar kemur að því að nota Panama skjölin sem pólitíska árás sem hefur verið í undirbúningi síðustu 7 mánuði. Sagan um forsætisráðherrann sem átti leynda sjóði í skattaskjóli er of góð fyrir suma til þess að þeir ómaki sig með staðreyndum.

Og þá kem ég að tilgangi þessarar greinar. Útlitið er ekki gott í efnahagsmálum, félags- eða stjórnmálum í hinum vestræna heimi í dag. Ísland er lýsandi dæmi þessa að hægt er að ná fram róttækum og mjög svo raunverulegum breytingum í pólitík og bæta lífsgæði fólks svo um munar. En það eitt og sér mun ekki tryggja efnahagslegan stöðugleika og framtíðar árangur. Það sem þarf núna, meira en nokkru sinni fyrr, er skynsamleg stjórnmálaumræða.

Internetið og samfélagsumræðan hefur breyst á þann veg að upplýsingar eru meðteknar samstundis en það skapar bæði ný tækfæri sem og mikla hættu. Fyrir um 300 árum síðan skrifaði Jonathan Swift: „Falshood flies and the truth comes limping after it“. Aldrei áður hefur þetta átt jafn vel við og á þeim tímum sem við lifum nú. Við þurfum að gæta að lýðræðinu því það á undir högg að sækja núna. Til að verja það þurfum við að horfa á hinn mikla árangur sem náðst hefur. Við þurfum að geta átt skynsamlegar rökræður byggðar á staðreyndum, eða að minnsta kosti leita að staðreyndum. Stjórnmálaflokkar hafa hlutverki að gegna, en einnig fjölmiðlar.

Fjölmiðlar spila ennþá stóran hlut í lýðræðislegri þróun. En til að geta uppfyllt þann hlut þurfa fjölmiðlar að sýna fram á að þeir haldi sig við staðreyndir þegar það vantar upp á annars staðar. Lýðræðissinnar allstaðar þurfa að finna rætur sínar að nýju, þær rætur liggja í skynsamlegri stjórnmálaumræðu, viljanum til þess að verja rétt fólks til þess að tjá umdeildar skoðanir sínar en á sama tíma viðurkenna að alltaf skuli markið vera sett nær sannleikanum. Og þegar slíkar umræður hjálpa til við að koma skynsamlegum lausnum að umfram vitleysu þurfum við að vera bæði viljug og hafa til þess svigrúm til þess að koma þeim lausnum að.